Dómar yfir sex manns vegna aðildar að framleiðslu amfetamíns í sumarbústað í Borgarnesi voru mildaðir í Landsrétti í dag. Fólkið, fimm karlar og ein kona, var dæmt í tveggja og hálfs árs til þriggja og hálfs árs fangelsi.
Jaroslava Davidsson, ekkja Ásgeirs Davíðssonar sem jafnan var kenndur við klúbbinn Goldfinger, var á meðal þeirra sem dæmd voru í málinu, en hún hlaut tveggja og hálfs árs dóm en hafði hlotið þriggja ára dóm í héraði.
Annar maður var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi, úr þremur árum.
Einn var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi, úr fjögurra ára dómi, og þrír í þriggja ára fangelsi, úr fjögurra ára dómi.
Málið komst í hámæli í febrúar í fyrra þegar sexmenningarnir voru handteknir á leið sinni úr Borgarfirði en þau voru handtekin við Hvalfjarðargöng.
Fólkið framleiddi amfetamínið frá grunni og við handtöku fundust tvö kíló af meðalsterku amfetamíni og eitt kíló af veiku amfetamíni.
Auk þess að vera fundin sek um framleiðslu efnanna voru þrír pólsku mannanna fundnir sekir um brot á lögum um náttúruvernd með því að hafa sturtað skaðlegum efnum sem tengdust framleiðslu amfetamínsins í náttúruna við bústaðinn.