Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur höfðað mál fyrir Félagsdómi gegn flugfélaginu Bláfugli og Samtökum atvinnulífsins, sem fer með samningsumboð fyrir félagið.
Í tilkynningu frá FÍA segir að SA og Bláfugl hafi gróflega vegið að lögum og reglum íslensks vinnumarkaðar og að staðan sé grafalvarleg. Flugmenn félagsins hafa verið í ótímabundnu verkfalli frá upphafi mánaðar.
Þar er vísað til framferðis Bláfugls í yfirstandandi kjaradeilu við félagið, þar sem öllum flugmönnum var sagt upp og í framhaldinu tilkynnt að framvegis verði ráðnir „sjálfstætt starfandi flugmenn.“
Þetta kallar FÍA gerviverktöku, enda geti flugmaður eðli máls samkvæmt ekki starfað sem verktaki.
„Sé þetta látið óátalið af yfirvöldum,“ segir í tilkynningunni, „má af því leiða að heimilt sé að segja upp launafólki landsins sem starfa á grundvelli kjarasamninga og ráða inn gerviverktaka í þeirra stað til að lækka laun verulega og svipta launafólk áunnum réttindum á borð við veikindarétt og orlof.“