Heilbrigðisráðuneytið er til rannsóknar vegna meintra sóttvarnarbrota á bóluefnafundi í húsakynnum Distica í Garðabæ á milli jóla og nýárs. Helgast það af því að ráðuneytið boðaði til fjölmiðlafundar vegna komu fyrstu skammta bóluefna frá Pfizer/BioNtech til landsins.
Þetta staðfestir Helgi Gunnarsson lögreglufulltrú hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is. Þá segir hann að enginn hafi enn verið kallaður til í skýrslutöku vegna málsins en hann á von á því að það verði gert í næstu viku og þegar hafi verið hringt í fólk í ráðuneytinu vegna málsins.
Á fundinum sem var í húsakynnum Distica í Garðabæ vakti það athygli einhverra að svo virtist sem fjöldi viðstaddra væri töluvert yfir þeim fjöldatakmörkunum sem kveðið er á um í sóttvarnareglugerð. Samkvæmt þáverandi reglugerðinni máttu almennt aðeins tíu manns koma saman í sama rými, þótt undantekningar hafi verið fyrir skólastarf, verslanir og ýmsa menningarviðburði.
Húsinu var skipt í tvennt með keðju. Öðrum megin voru embættismenn og fulltrúar Distica, hinum megin fréttamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn frá minnst fjórum fjölmiðlum auk nokkurra annarra starfsmanna Distica og vopnuðum sérsveitarmönnum.
Taldi blaðamaður minnst fjörutíu manns í húsinu, þar af meirihluta þeirra þeim megin keðjunnar sem embættismenn voru ekki.
Bæði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra höfðu það á orði að of of margir hafi verið í húsakynnum Distica í Garðabæ.