Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Sjötti skjálftinn yfir fjórum stigum mældist í dag kl. 18.24 að því er fyrstu mælingar benda til. Á hann upptök sín við Fagradalsfall á Reykjanesskaganum og fannst vel á Hellu sem og á höfuðborgarsvæðinu.
Var hann 4,1 að stærð samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.
„Það eru búnir að vera um 1.800 skjálftar í dag, það er skjálfti nánast á hverri einustu mínútu,“ segir Elísabet Pálmadóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu. Segir hún því ekki óeðlilegt að fólk upplifi að það finni fyrir jarðskjálfta hvað úr hverju.
„Jörðin er stöðugt að hristast og er búin að vera að því í dag,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Segir Elísabet að vel megi búast við frekari eftirskjálftavirkni í dag en skjálftahrinan tók sig upp að nýju í hádeginu.
„Það hefur verið áframhaldandi virkni eftir fyrsta skjálftann en það dró aðeins úr kraftinum í gær og í nótt. En síðan eftir hádegi í dag fóru að koma stærri skjálftar en í gær.“