„Lengi var ég mjög reiður út af því sem gerðist. Í dag reyni ég að taka einn dag í einu. Mér finnst frábært að við höfum fengið þessa viðurenningu því að það er ekkert gefið mál að fá slíkt,“ segir Alex Már Jóhannsson, 25 ára maður sem var á barnsaldri beittur kynferðisofbeldi af stuðningsfulltrúa sem starfaði hjá Barnavernd Reykjavíkur.
Alex Már og systir hans Sjana Rut hafa náð samkomulagi við Reykjavíkurborg um skaðabætur vegna mistaka borgarinnar í málinu. Maðurinn var stuðningsfulltrúi Alex Más og Sjönu Rutar frá árinu 2004 og til ársins 2010 og braut á þeim báðum.
Tilkynningin um brot mannsins til Reykjavíkurborgar barst árið 2008 en vegna mistaka borgarstarfsmanns var tilkynningunni ekki komið áleiðis til barnaverndar Reykjavíkur. Af þeim sökum fékk maðurinn að vinna áfram með börnum. Tíu árum síðar voru níu kærur um kynferðisofbeldi gegn börnum sem voru í hans umsjá lagðar fram á hendur honum. Maðurinn hefur verið dæmdur í Landsrétti fyrir að brjóta kynferðislega á börnum.
„Þetta er stór sigur og mikill léttir en þetta hefur verið mjög erfitt, bæði vegna þess að þetta hefur tekið langan tíma og maður vissi lengi aldrei svarið,“ segir Alex Már.
„Það er eitt sem ég hef lært af þessu, það er að stíga fram, stoppa ekki, ekki gefast upp. Ef þú gefst upp ertu búinn að gefast upp á sjálfum þér líka. Það eru aðal skilaboðin sem ég vil koma til annarra sem eru í sömu stöðu.“