Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjaness og dæmt karlmann í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar.
Hann var einnig sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa skoðað í farsíma sínum 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd sem sýndu börn á kynferðislegan hátt og fyrir að hafa haft í vörslum sínum 1,44 grömm af kókaíni.
Maðurinn var dæmdur til að greiða 2/3 hluta sakarkostnaðar málsins í héraði og fyrir Landsrétti, sem samtals nemur rúmum fjórum milljónum króna.
Héraðsdómur hafði sýknað manninn af nauðgun og kynferðisbroti gegn barni en dæmt hann til að greiða 300 þúsund krónur í sekt fyrir að skoða ljósmyndirnar og hreyfimyndina og fyrir fíkniefnalagabrot.
„Við ákvörðun refsingar X var litið til þess að með háttsemi sinni nýtti hann sér yfirburðastöðu sína gagnvart A og traust hennar og trúnað sem sambýlismaður móður hennar,“ segir í útdrætti Landsréttar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar árið 2018 en brotin áttu sér stað á árunum 2016 og 2017.