Tveir aðilar hafa lýst yfir áhuga á rekstri hjúkrunarheimila á Akureyri. Viðræður við þessa aðila standa nú yfir, að sögn Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands.
Sjúkratryggingar auglýstu 1. febrúar eftir viðræðum við aðila, fyrirtæki, félög eða stofnanir sem hefðu áhuga á að taka við rekstri hjúkrunarheimila í Vestmannaeyjum, Fjarðabyggð og á Akureyri. Áhugasamir voru beðnir um að gefa sig fram fyrir 15. febrúar. Þessi hjúkrunarheimili hafa verið rekin af sveitarfélögunum sem sögðu upp samningum um reksturinn.
„Enginn lýsti áhuga á rekstri hjúkrunarheimilanna í Vestmannaeyjum og í Fjarðabyggð og eru málefni þeirra til skoðunar hjá heilbrigðisráðuneytinu. Sjúkratryggingar vænta þess að niðurstaða í öllum þessum málum liggi fyrir mjög fljótlega. Þá er gert ráð fyrir að nýr aðili taki yfir reksturinn á Hornafirði innan skamms,“ sagði í skriflegu svari Maríu.
Morgunblaðið fjallaði nýlega um óánægju sveitarfélaga og félaga sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga með samskipti þeirra við Sjúkratryggingar. María svarar þeirri gagnrýni í blaðinu í dag.