„Verðum áfram í svona limbói næstu daga“

Vísindamenn Veðurstofu Íslands við rannsóknir á Reykjanesi.
Vísindamenn Veðurstofu Íslands við rannsóknir á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru skjálftar sem eru á mjög svipuðum slóðum og stærsti skjálftinn varð, að stærð 5,7. Þetta verður að teljast sem hluti af eftirskjálftavirkni. Þessar hrinur haga sér svona, þær detta niður og svo taka þær sig upp að nýju.“

Þetta segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um skjálftahrinuna sem varð um og skömmu eftir hádegi í dag. Þá urðu fimm skjálftar yfir 3,0 að stærð skammt frá Fagradalsfjalli á um 25 mínútum.

„Ég held við verðum að gera ráð fyrir því að við verðum áfram í svona limbói næstu daga,“ segir Kristín um framhaldið og næstu daga.

Stærsti skjálftinn í hrinunni varð klukkan 12:06 og var 4,4 að stærð. Veðurstofunni barst töluverður fjöldi tilkynninga vegna skjálftans, þar á meðal frá Borgarnesi og Hellu.

Sérfræðingar á Veðurstofunni fengu senda nýja gervitunglamynd í morgun og hún staðfestir það sem skjálftarnir sýna að sögn Kristínar. „Þetta eru í rauninni norður-suður sprungur sem eru að hliðrast eftir Reykjaneshryggnum bæði til austurs og vesturs út frá Fagradalsfjallinu.“

Engin merki eru um landris eða gosóróa en mælingar sem gerðar voru í Svartsengi fyrr í vikunni sýndu óvenju hátt magn vetnis en öll önnur gildi voru eðlileg. Kristín segist ekki geta sagt hvort það hafi einhverja þýðingu heldur þarf að framkvæma aðra mælingu til að sjá hvort sú fyrsta hafi verið rétt eða ekki.

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst á miðvikudaginn. Búast má við eftirskjálftum …
Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst á miðvikudaginn. Búast má við eftirskjálftum næstu dögu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert