Alls brautskráðust 33 nemendur frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í gær.
Af þeim sem brautskráðust voru sjö af viðskiptabrautum, sjö af hönnunar- og markaðsbraut, fimm af félagsvísindabraut, fimm af listnámsbrautum, fjórir af náttúrufræðibraut, þrír af íþróttabraut og tveir af alþjóðabrautum.
Sigurbjörg Eiríksdóttir varð dúx á miðönn og hún fékk einnig verðlaun fyrir góða ástundun.
Emilía Ósk Friðjónsdóttir fékk verðlaun fyrir lokaverkefni á hönnunar- og markaðsbraut og Hermann Óli Bjarkason fyrir góðan árangur í íþróttafræði.
Þá fékk Snædís Sól Geirsdóttir viðurkenningu Soroptimistafélags Garðabæjar fyrir framfarir í námi og hvatningu til áframhaldandi náms. Ávarp nýstúdents flutti Natalía Erla Arnórsdóttir.
Í ræðu sinni var skólameistara ástandið vegna Covid-19 hugleikið, en hann vonast eftir að nú á vorönn verði hægt að halda skólastarfi FG sem eðlilegustu. „Þó að ég hrósi rafrænum lausnum í kennslu þá hefur verið mikið skemmtilegra í skólanum síðan nemendur sáust á göngunum. Gleði nemenda við koma aftur í skólann var auðséð og einn kennarinn sagði að þeir væru næstum því hressir á morgnana,“ sagði Kristinn Þorsteinsson skólameistari meðal annars þegar hann kvaddi nemendur, að því er kemur fram í tilkynningu.