Ríkisstjórnin tilkynnti fyrir helgi að fimm milljónir króna yrðu veittar úr ríkissjóði til heimildarþáttagerðar Jóhannesar Kr. Kristjánssonar blaðamanns og Sævars Guðmundssonar kvikmyndagerðarmanns um faraldur Covid-19 á Íslandi.
Þó að fjármögnun myndarinnar sé að þessu leyti í höfn, vita líklega færri að tvímenningarnir hófust handa við myndina fyrir löngu, nefnilega um leið og veiran gerði strandhögg hér á landi.
Tökur hófust um leið og fyrstu smit greindust og tökudagarnir eru að sögn Jóhannesar þannig þegar orðnir um 260-270.
„Þetta er stærsta verkefni sem ég hef farið í og það stærsta sem Sævar hefur farið í,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.
Fyrsta spurningin um heimildarmynd um efni, sem eins margfaldlega hefur verið fjallað um, hlýtur að lúta að því hvort hún segi eitthvað nýtt.
Svarið við þessu er já: „Við fengum einfaldlega aðgang að starfi þríeykisins frá upphafi og höfum síðan bara elt þau svolítið.“
Þannig var Jóhannes staddur baksviðs fyrir upplýsingafundina og skrásetti það sem fór á milli málshefjenda áður en haldið var út í sal á örlagastundum í sögu þjóðarinnar. Sömuleiðis var fundað á fjölda annarra vígstöðva og ekki aðeins hjá þríeykinu, heldur öllu kerfinu í heild. Jóhannes gerir því líka skil í þáttunum.
„Þetta voru bæði erfið augnablik og gleðileg. Ég myndi ekki segja að í myndefni okkar birtist önnur mynd af þríeykinu en sú sem hefur þegar birst í fjölmiðlum.
Þríeykið sagði við mig frá fyrsta degi að þau væru ekki að fara að fela neitt. Þannig hefur þetta alltaf verið. Ég hef fengið að fylgjast með baksviðs og síðan einnig á fundunum sjálfum og ég hef ekki séð að þau segi þar eitthvað annað en þau segja á eigin fundum á undan.
Það er einfaldlega ekkert verið að fela, sem kom mér skemmtilega á óvart,“ segir Jóhannes.
Útgangspunkturinn var frá upphafi að sýna á bak við tjöldin í viðbrögðum Íslendinga við Covid-19.
Jóhannes lagði leið sína vestur þegar alvarlegt ástand skapaðist á hjúkrunarheimili í Bolungavík og sömuleiðis þegar neyðarástand ríkti á Akureyri. Að öðru leyti hafa hann og Sævar einfaldlega leitast við að vera þar sem faraldurinn lætur hvað mest til sín taka.
„Í grunninn hefur okkur tekist að ná utan um faraldurinn og við getum sýnt allar hliðar máls og sögurnar sem verða til þarna. Um leið kynnumst við mjög sterkum karakterum. Þetta er hörkustöff og auðvitað sögulega mikilvæg heimild,“ segir Jóhannes.
Fyrirhugað er að sýna sex þátta seríu um Covid-19 á Íslandi í haust eða vetur og um leið vinna alþjóðlega heimildarmynd um faraldurinn hér á landi. Tökur halda áfram en eftirvinnsla er samhliða því að hefjast.