Jarðvísindamenn Veðurstofu Íslands hafa undanfarna daga mælt gasuppstreymi á Reykjanesskaga og munu gera það bráðlega aftur til að leita vísbendinga um hvort kvika sé að leita upp á yfirborðið.
Kvika gefur frá sér ákveðnar tegundir af gasi og geta mælingar á þeim gefið vísbendingar um jarðhræringar, útskýrir Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.
Hún segir HS orku einnig vakta gasuppstreymi reglulega á svæði þar sem félagið er með starfsemi.
Gasmælingar eru einar af nokkrum mælingum sem framkvæmdar eru til að meta mögulegar jarðhræringar. Einnig þarf að styðjast við GPS- og gervihnattamyndir sem sagt geta til um landris, jarðskjálftamælingar og jarðhitamælingar. Gas getur losnað við skjálfta án þess að um kvikuinnskot sé að ræða.
Niðurstöður gasmælinga benda ekki til þess að kvikuinnskot sé á neinu svæðanna sem mælt var á. Hins vegar eru gasuppstreymismælingar ekki framkvæmdar reglulega svo samanburður við eðlilegt ástand er erfiður. Í Seltúni er gasuppstreymi reglulega mælt og er það svipað og á venjulegum degi.