Febrúarmánuður, sem senn er liðinn, hefur verið höfuðborgarbúum hagstæður. Febrúar virðist ætla að verða á meðal þeirra 20 hlýjustu í Reykjavík, gæti náð upp í 10. sæti af 150 mældum árum.
Svipað má segja með vetrarmánuðina þrjá, hiti þeirra er nú í kringum 20. sætið, segir Trausti Jónsson veðurfræðingur.
Alhvítu dagarnir í Reykjavík í febrúar séu orðnir þrír. Það þýðir að vetrarfjöldinn er orðinn sex, segir Trausti. Fæst er vitað um 10 alhvíta daga á vetri í Reykjavík, 1976-77. „Við eigum því enn fræðilegan möguleika á að slá eða jafna það met - en þá mega dagarnir ekki vera nema fjórir úr þessu til vors,“ bætir Trausti við.
Meðalfjöldi alhvítra daga í mars til maí er 16. Verði snjóalög í meðaltali í mars og apríl verða alhvítir dagar vetrarins því um 23, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.