Hrinan sú öflugasta frá árinu 1933

Horft að Keili frá höfuðborgarsvæðinu.
Horft að Keili frá höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hari

Virknin í skjálftahrinunni er núna fyrst og fremst bundin við svæðið í kringum Fagradalsfjall eftir jarðskjálftann af stærð 5,2 í morgun og er hrinan sú öflugasta frá árinu 1933.

Yfir 7.200 skjálftar hafa mælst frá því hrinan hófst 24. febrúar og má búast við því að jarðskjálftavirkni haldi áfram næstu daga.

Þetta kom fram á fjarfundi vísindaráðs almannavarna í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna sem hófst á Reykjanesskaga þann 24. febrúar með skjálfta af stærð 5,7 og öðrum 5,0 að stærð um hálfri klukkustund síðar. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR. 

„Vísindaráð fór yfir þær mælingar og gögn sem liggja fyrir, s.s. jarðskjálftamælingar, GPS-gögn, gasmælingar og úrvinnslu úr gervitunglamyndum. Mælingar gefa engar vísbendingar um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið, en sýna vel ummerki jarðskjálftanna sem hafa orðið hingað til,“ segir í tilkynningunni.

„Flestir skjálftar sem mælst hafa síðustu daga eru á um 5 km dýpi við Fagradalsfjall og hafa ekki færst nær yfirborði, en slíkt gæti verið vísbending um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Í hrinu sem varð við Fagradalsfjall árið 1933 urðu allnokkrir kröftugir skjálftar á skömmum tíma, sambærilegir þeim sem nú ganga yfir. Þeirri hrinu lauk án þess að til eldgoss kæmi. Sama má segja um hrinu sem varð árið 1973,“ segir þar einnig.

Grjóthrun vegna jarðskjálfta.
Grjóthrun vegna jarðskjálfta. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands

Fram kemur að núverandi virkni á Reykjanesskaga, sem megi rekja rúmt ár aftur í tímann, hafi verið kaflaskipt. Erfitt sé að spá fyrir um nákvæma framvindu. Núna sé fyrst og fremst horft á tvær sviðsmyndir:

  • Dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 5,5-6,5 að stærð.

„Langflest hús á Íslandi eru byggð þannig að þau eigi að standast þá hrinu sem nú gengur yfir. Lausir munir, hillur, skápar o.s.frv., geta farið af stað og valdið hættu ef ekki er rétt frá þeim gengið. Því er mikilvægt að huga að innanstokksmunum á heimilum og á vinnustöðum svo þeir valdi ekki slysum,“ segir í tilkynningunni.

Áfram verður fylgst náið með framvindu mála og vísindaráð mun funda aftur í næstu viku. Veðurstofan, Háskólinn og samstarfsaðilar munu vinna að fjölgun mælitækja á Reykjanesi á næstu dögum og vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert