Íslenskir glæpahópar umsvifamiklir erlendis

Karl Steinar Valsson hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra.
Karl Steinar Valsson hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. mbl.is//Hari

Umsvif íslenskra glæpahópa erlendis eru mun meiri en ætla mætti af umræðu um skipulagða glæpastarfsemi að sögn Karls Steinars Valssonar yfirlögregluþjóns hjá alþjóðasviði ríkislögreglustjóra. Segir hann þekkt að íslenskir glæpahópar séu með starfsemi á Spáni, Hollandi, Þýskalandi, Ítalíu, Danmörku og í Suður-Ameríku svo dæmi séu nefnd.

Umsvifamest sé starfsemin í kringum fíkniefnastarfsemi en einnig sé nokkuð um svikastarfsemi á borð við peningaþvætti. „Við eigum það til að einblína á útlendu hópana sem eru á Íslandi. Sviðsmyndin er hins vegar ekki svo einföld,“ segir Karl Steinar. 

Hann segir suma skipulagða íslenska glæpahópa stunda brotastarfsemi einungis að litlu eða engu leyti hér á Íslandi. Að mestu leyti sé um að ræða starfsemi í þeim löndum sem hóparnir hafa aðsetur. „Fíkniefnaviðskiptin og peningaþvættið hangir saman. Mest eru þetta viðskipti sem fara fram í Evrópu en einnig í Suður-Ameríku og Ástralíu,“ segir Karl Steinar.

Fíkniefnaviðskipti eru stærstur hluti starfsemi íslenskra glæpahópa á erlendum vettvangi.
Fíkniefnaviðskipti eru stærstur hluti starfsemi íslenskra glæpahópa á erlendum vettvangi. AFP

Þá segir hann að lögregla geri ráð fyrir því að langstærstur hluti þessara hópa noti lögleg fyrirtæki til þess að þvætta peninga. Hið sama á við um á Ísland. „Sum fyrirtæki á Íslandi eru þekkt en önnur erum við með tilgátur um,“ segir Karl Steinar spurður um íslensk fyrirtæki sem talin eru tengjast peningaþvætti.   

Hann segir umræðuna á Íslandi gjarnan snúa að því að erlendir glæpahópar beri ábyrgð á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Sviðsmyndin sé hins vegar mun flóknari en svo. Glæpahópar séu íslenskir, erlendir og blandaðir hópar ólíkra þjóðerna. „Við Íslendingar erum svolítið þannig að menn vilja einfaldar lausnir en málin eru oft miklu flóknari en svo,“ segir Karl Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka