Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir algengustu sviðmyndirnar varðandi rýmingaráætlun ganga út á að færa fólk til innan höfuðborgarsvæðisins eða að rýma heilu hverfin.
Mjög ósennilegt er að rýma þyrfti höfuðborgarsvæðið í heild sinni ef það kæmi til eldgoss í nágrenni þess.
Komi til rýmingar verður fólk fyrst og fremst látið vita í gegnum fjölmiðla, samfélagsmiðla og SMS-skilaboð, sagði Dagur, sem er einnig formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, í kvöldfréttum RÚV.
„Og oft er það sem skiptir mestu máli að koma róandi upplýsingum á framfæri. Því það er í gríðarlega mörgum tilvikum það versta sem getur gerst ef allir rjúka út í bílinn sinn og ætla að keyra eitthvað,“ sagði hann.