Mikilvægt er að fólk fari vel yfir heimili sitt og vinnustaði, festi skápa bæði uppi og niðri og geymi ekki þunga hluti í hillum. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Mesta hættan af skjálftahrinunni á Reykjanesskaga sé ekki mögulegt eldgos heldur að hlutir falli á fólk í skjálftunum og slasi það.
„Okkur er mikil alvara í því að fólk skoði umhverfi sitt,“ segir Víðir. Ekki sé nóg að taka niður stórar styttur eða málverk og ætla að hengja upp aftur þegar hrinan er búin, eins og hann hafi séð á samfélagsmiðlum.
„Það virkar ekki þannig. Þótt það sé hrina í gangi núna og meiri líkur á stórum skjálftum þá geta stórir skjálftar komið án nokkurs fyrirvara þannig að fólk þarf að hugsa um heimili og vinnustaði út frá því. Nú þurfa menn að kalla til iðnaðarmenn á vinnustaðinn og láta fara yfir þessa hluti.“
Hættustig er í gildi á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og í Árnessýslu vegna skjálftavirkni á Reykjanesskaga en þar hafa þúsundir skjálfta riðið yfir síðustu daga, sá stærsti 5,7 á miðvikudag. Víðir segir skilaboðin því eiga við alla þá sem búa á hættusvæðinu, og raunar fleiri. „Fólk alls staðar á landinu sem býr á jarðskjálftasvæðum þarf alltaf að vera að hugsa um þetta.“
Almannavarnir funduðu í hádeginu með vísindamönnum frá Háskóla Íslands, Veðurstofunni og fulltrúum sveitarfélaga á suðvesturhorninu auk fulltrúa úr raforku- og fjarskiptageiranum þar sem farið var yfir líklegustu sviðsmyndir. „Þetta var góður fundur og mikið af upplýsingum enda hátt í 130 manns sem komu að honum með einum eða öðrum hætti,“ segir Víðir.
Hann segir sviðsmyndir vegna skjálftavirkninnar óbreyttar. Annars vegar að hrinan haldi áfram með skjálftum yfir fimm og þar með geti hlutir hrunið úr hillum eða færst úr stað og valdið meiðslum. Hins vegar að það verði enn stærri skjálfti austar með meiri áhrifum á byggingar og innanstokksmuni. Ekki séu þó taldar líkur á að hús hrynji.
Ekki var farið sérstaklega yfir viðbrögð við eldgosi á fundinum enda engar vísbendingar um kvikuinnskot. Vísindamenn haldi þó áfram að fara yfir stöðuna. Uppfærðar viðbragsáætlanir og rýmingaráætlanir fyrir þéttbýli á Reykjanesi eru til.
Reykjanes er tiltölulega vel vaktað svæði og búið öflugum mælitækjum, en þó er til skoðunar hvort hægt sé að fjölga mælitækjum til að auka nákvæmni í vöktun.