Málefni íslenskra sérnámslækna í Noregi sem útlit er fyrir að þurfi að endurtaka kandídatsár sitt eru í forgangi hjá heilbrigðisráðuneytinu hér á landi. Málið er til umfjöllunar í vinnuhópi og er markmið hans að vinna sem skjótast að lausn þess. Þá verður leitast við að leysa mál einstakra lækna sem eru í vandræðum vegna stöðunnar.
Þetta kemur fram svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
mbl.is greindi frá því í síðustu viku að íslenskir sérnámslæknar sem stunda sérnám í Noregi sjái fram á að þurfa að endurtaka kandídatsárið sitt vegna breytinga á skipulagi læknisnáms þar í landi. Útlit er fyrir að sama staða komi upp fyrir íslenska sérnámslækna í Svíþjóð innan tíðar.
Í viðtali við mbl.is kallaði Ragnheiður Vernharðsdóttir sérnámslæknir eftir aðgerðum frá stjórnvöldum. Þá sagði hún að staðan geti haft veruleg áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi.
„Málið sem spurt er um er til umfjöllunar í vinnuhópi sem heilbrigðisráðherra skipaði til að endurskoða reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi,“ segir í svari ráðuneytisins.
Þar kemur fram að innan skamms muni hópurinn gera tillögu til heilbrigðisráðherra um hvernig fella megi fyrirkomulag við veitingu læknaleyfis og skipulag kandidatsárs að því sem tíðkast hjá grannþjóðum og öðrum löndum þar sem íslenskir læknar leita í sérnám.
„Leitast verður við að leysa málefni einstakra lækna sem lenda í millibilsástandi vegna núverandi stöðu með viðræðum við þar til bær stjórnvöld í Svíþjóð og Noregi þar sem mál eins og nefnd eru í fyrirspurn þinni hafa komið upp,“ segir jafnframt í svari ráðuneytisins.
Í svari norska heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is sem greint var frá í gær kom fram að túlkun ráðuneytisins á lögum um starfsréttindi heilbrigðisstétta útiloki möguleikann á því að íslenskir sérnámslæknar geti sloppið við að taka áfangann LIS1 í upphafi sérnáms, en LIS1 er sambærilegur íslensku kandídatsári sem allir læknanemar hérlendis undirgangast áður en þeir fara í sérnám.