„Ég kalla mig framkvæmdastjóra Skrekks,“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri barnamenningar hjá Reykjavíkurborg, sem hefur nóg að gera þessa dagana við að undirbúa einn stærsta viðburð unglinga höfuðborgarinnar.
„Ég elska Skrekk. Ég var áður unglingakennari og óskaði þá alltaf eftir að fylgja áhorfendum á Skrekk. Ég byrjaði því að fylgjast með Skrekki fyrir um tólf árum. Ég held núna utan um alla tauma,“ segir Harpa Rut og nefnir að hún eyði á venjulegu ári heilum tveimur mánuðum í vinnu við Skrekk, en Covid hefur bætt vel við það.
„Þetta er risastór lýðræðis- og hæfileikahátíð unglinga. Þarna fá unglingar að vinna með hugmyndir sínar og þróa sviðsverk, en 35 nemendur frá hverjum skóla mega keppa fyrir hönd síns skóla. Þetta er svo stór viðburður í hugum unglinganna, bæði þátttakenda, keppenda og skólanna. Þetta er eins og heimsmeistaramót,“ segir Harpa Rut og segir undanúrslitakvöldin vera þrjú áður en kemur að stóru stundinni, úrslitakvöldinu.
„Í ár eru átján skólar sem taka þátt, en venjulega eru þeir fleiri. Og svo er gaman að Klettaskóli er með, nú í fjórða sinn. Krakkarnir mega gera hvað sem er; það eru fáar reglur í raun, þeir mega ekki vera fleiri en 35; þeir hafa sex mínútur á sviðinu og mega nota ákveðinn fjölda míkrófóna. Þau byrja strax á haustin að setjast niður og ræða hvað þau vilja fjalla um. Það er áhugavert í ár að það er einungis eitt atriði sem kemur inn á Covid. Líklega hafa þau haldið að hinir væru að fjalla um Covid og vildu ekki vera eins og aðrir,“ segir hún.
„Oft eru þau að fjalla um sjálfsmynd unglinga, sitt eigið líf og líðan og áskoranir. Í ár fjalla þau um sorg og gleði, áföll, einhverfu og svo er einn skóli sem gagnrýnir stjórnvöld fyrir að senda erlend börn úr landi. Þau eru mjög pólítísk. Þau eru yfirleitt ekki mikið í gríninu,“ segir Harpa Rut og segir þau nýta allar sviðslistir í atriðin; söng, dans, leiklist og gjörninga.
„Krakkarnir sjá um allt; líka tæknihliðina, búninga og smink. Fullorðnir eiga bara að styðja þau.“
„Þetta er fjórða dagsetningin. Við erum að halda Skrekk 2020 í mars 2021 og munum svo halda Skrekk 2021 í nóvember. Núna vegna kórónuveirunnar hefur félagslíf krakkanna verið takmarkað og það var fallegt þegar ein stelpa í 10. bekk, sem er að taka þátt í síðasta sinn, sagði að Skrekkur væri ljósið í myrkrinu í Covid.“
Harpa Rut segir að mikið stolt fylgi því að vinna Skrekk.
„Ég man þegar ég var að kenna í Austurbæjarskóla og krakkarnir unnu Skrekk að þau fóru upp í Hallgrímskirkju og hlupu allsber í kringum kirkjuna. Þau fríkuðu svo mikið út því þetta var svo mikil gleði,“ segir Harpa Rut og hlær.
Síðastliðið haust kom út meistararitgerð um Skrekk og áhrif þátttöku á unglinga. Höfundur er Jóna Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands. Ber ritgerðin nafnið: Að vekja listina í sjálfum sér: ávinningur nemenda af þátttöku í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkurborgar.
Jóna Guðrún vann rannsókn um Skrekk ásamt Rannveigu Björk Þorkelsdóttur, dósent hjá HÍ, og skrifuðu þær grein um niðurstöður sínar í Netlu, rannsóknarriti Háskóla Íslands.
Jóna Guðrún segir Skrekk hafa afar jákvæð áhrif á unglinga sem skilar sér meðal annars í auknu sjálfstrausti og betri félagslegum tengslum.
„Krakkarnir valdeflast með því að fá að ráða sjálf verkefninu. Sjálfstraust þeirra eflist og með þessari samvinnu efla þeir hver annan til frekari afreka. Vinnuandinn er mjög jákvæður og krakkarnir þjálfast í að vinna saman, hlusta á hver annan og taka tillit. Niðurstöður rannsóknarinnar voru mjög jákvæðar, en við töluðum við nemendur, kennara og skólastjórnendur,“ segir Jóna Guðrún.
Nánar er fjallað um Skrekk í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.