Hinn 23. júlí 1929, eða fyrir næstum einni öld, varð stærsti jarðskjálftinn sem vitað er um að hafi orðið á Reykjanesskaga. Hann var 6,3 að stærð, fannst víða um land og olli umtalsverðu tjóni í Reykjavík og nágrenni.
Upptök skjálftans voru nálægt Brennisteinsfjöllum, líklega á hinu svokallaða Hvalhnúksmisgengi.
Þetta kemur fram í yfirliti Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings yfir jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga, sem var unnið vegna jarðskjálftahrinunnar sem hefur gengið yfir undanfarna daga.
Stærsti skjálftinn í yfirstandandi hrinu mældist 5,7 síðastliðinn miðvikudag.
Elsti skjálftinn í yfirliti Páls er frá árinu 1151. „Eldur uppi í Trölladyngjum, húsrið og manndauði,“ er skrifað við ártalið.
Minnst er á Suðurlandsskjálftann 17. júní árið 2000. Þrír skjálftanna voru stærri en 5. Sá stærsti, sem var 5,9, átti upptök undir Kleifarvatni.
Nýjasti skjálftinn sem tilgreindur er í yfirlitinu er frá árinu 2013. Hann var 5,2 að stærð og átti upptök skammt austan Reykjaness. Ekkert tjón varð.