Tíu skjálftar yfir 3 að stærð hafa orðið á Reykjanesskaganum frá miðnætti. Stærstur þeirra var skjálfti 4,7 að stærð klukkan 00:19. Alls hafa um 600 skjálftar orðið í nótt.
Klukkan 7:54 varð skjálfti 4,0 að stærð 2,5 kílómetra norðaustur af Fagradalsfjalli og fannst hann vel í byggð. Er skjálftinn sá stærsti síðan klukkan 00:19.
Skjálftinn skömmu eftir miðnætti í gær fannst víða, á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu, austur af Hvolsvelli og í Borgarfirði. Þá fannst skjálftinn einnig í Búðardal og á sunnanverðu Snæfellsnesi.
Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands, segir virknina í nótt hafa verið svipaða og síðustu nætur.
„Þetta er bara svona svipað og síðustu daga. Virknin virðist vera í bylgjum, það kemur kraftur í hana og svo róast hún,“ segir Elísabet.
Hún segir að virknin sé núna á því svæði sem hún var í upphafi hrinunnar sem hófst miðvikudaginn 24. febrúar, en í gær og fyrradag var virknin meira svæðisbundin við Fagradalsfjall.
„Það komu nokkrir skjálftar í Núpshlíðarhálsi í nótt, þar hefur verið virkni frá 24. febrúar. Það var í rauninni bara í gær og í fyrradag sem virknin var aðallega við Fagradalsfjall. 24. febrúar byrjaði virknin á svolítið mörgum stöðum svo það er alveg eðlilegt að hún stökkvi aðeins á milli, sérstaklega eftir svona stærri skjálfta. Þetta heldur áfram, virðist ekki vera alveg búið,“ segir Elísabet.
Fréttin hefur verið uppfærð