August Hakansson, leiðangursstjóri og flugstjóri hjá Icelandair, segir að allt hafi gengið eins og í sögu þegar áhöfn á vegum Icelandair sótti norska vísindamenn á Suðurskautslandið og flaug þeim aftur til síns heima.
Lagt var af stað frá Íslandi á miðvikudag og lent á Troll á suðurskautinu á föstudag, þar sem vísindamönnunum var komið inn í vél áður en haldið var af stað heim til Noregs. Boeing 767-vél Icelandair lenti svo í Keflavík um kaffileytið í gær eftir langt ferðalag en August segir að flugtímarnir hafi verið rúmlega 42. Millilent var í Höfðaborg í Suður-Afríku á báðum leiðum.
August kveðst eilítið lúinn eftir ferðina og segir fínt að jafna sig í sóttkví, þó að honum þyki fimm dagar fulllangur tími til þess.
Eins og kom fram fyrir helgi er flugbrautin í Troll ólík því sem fólk á að venjast frá hefðbundnum flugvöllum en flugbrautin er gerð á ís. August segir að brautin sé á skriðjökli.
„Það er harður snjór ofan á ísnum og það var alls ekki hált,“ segir August og bendir á að jökulís verði yfirleitt ekki sleipur við vissar aðstæður, eins og voru í 13 stiga frosti í Troll fyrir helgi. Aðstæður hafi því bara verið góðar, þó að þetta sé annað en flugstjórinn eigi að venjast.
August segir að þriðjungur norsku vísindamannanna hafi verið á suðurskautinu í 16 mánuði en hinir síðan í nóvember. Þeir sem höfðu verið lengst hafa því dvalið í hálfgerðri einangrun frá því áður en kórónuveirufaraldurinn skall á heimsbyggðinni.
„Þau hafa vitað af þessu en ekki haft reynslu af veirunni frá fyrstu hendinni, bara fylgst með fréttum,“ segir flugstjórinn en Norðmennirnir sluppu við sóttkví við komuna til síns heima.