Efnin sem enn finnast í Fossvogsskóla eru skaðleg

Fossvogsskóla var lokað tímabundið síðasta vetur vegna raka og myglu.
Fossvogsskóla var lokað tímabundið síðasta vetur vegna raka og myglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Börn í Fossvogsskóla sem áður hafa fundið fyrir einkennum vegna myglu eru enn næm fyrir myglugró. Myglugró finnst enn í skólanum þrátt fyrir aðgerðir borgaryfirvalda til þess að útrýma henni. Þetta staðfestir sveppafræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands við mbl.is.

Foreldrar barna í Fossvogsskóla eru margir hverjir langþreyttir á því sem þeir segja vera vanhæfni Reykjavíkurborgar til þess að takast á við vandann. Formaður skóla- og frístundaráðs segir að árangur hafi náðst í þeim aðgerðum sem ráðist var í en viðurkennir að vonbrigði séu að enn finnist myglugró í Fossvogsskóla.

Þrátt fyrir að ekki finnist eiginleg mygla í Fossvogsskóla lengur, heldur aðeins myglugró, er enn um að ræða skaðlegt efni sem getur valdið einkennum hjá þeim sem hafa veikst vegna myglu.

mbl.is

Eins og munurinn á blómi og fræi

„Þetta er ekki mygla heldur myglugró,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is. „Munurinn á því er eins og munurinn á blómi og fræi. Engin sýnataka hefur staðfest myglu frá því seinasta sumar.“

Þar vísar Helgi í niðurstöður Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem tiltækar voru í desember í fyrra, en ekki kynntar foreldrum fyrr en í febrúar. Þetta hafa foreldrarnir gagnrýnt en Helgi segir að mikilvægt sé að tryggja að búið sé að fara yfir slíkar upplýsingar, sem koma frá sérfræðingum, áður en þær eru kynntar formlega.

„Það skiptir miklu máli þegar svona skýrslur eru gerðar að menn séu búnir að lesa í gegn og það sé búið að ná að túlka niðurstöðurnar. En ég undirstrika að það séu vonbrigði að það sé ennþá að greinast myglugró þrátt fyrir þessar framkvæmdir sem ráðist var í. Og við erum bara á fullu við að vinna að því að finna orsökina og það er árangur af þessum aðgerðum,“ segir Helgi.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Spurður út í hvort til tals hafi komið að bjóða börnum í Fossvogsskóla að stunda nám annars staðar á meðan upptök myglugróanna finnast ekki segir Helgi að skólayfirvöld vilji auðvitað að börn geti stundað nám við sinn hverfisskóla.

„Fyrir þau börn sem hafa verið að sýna einkenni hefur verið sú leiðsögn af okkar hálfu að láta skólastjórann vita og við erum með starfsmann í því á skóla- og frístundasviði að fylgjast með líðan þessara barna.“

Upplýsingagjöf ábótavant

Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla, segir að foreldrar séu langþreyttir á málinu. Viðbrögð og framferði borgaryfirvalda einkennist af vanhæfni og áhyggjuefni sé að stærsta sveitarfélag landsins ráði ekki við vandann í Fossvogsskóla.

„Þessar niðurstöður eru sláandi. Börnin eru enn inni í skólanum og maður spyr sig hver metur það eiginlega og tekur ákvörðun um það að óhætt sé fyrir börnin að vera í skólanum,“ segir Karl við mbl.is um niðurstöður Náttúrufræðistofnunar.

„Börnin, sem eru besti mælikvarðinn á ástand húsnæðisins, þau hafa verið að sýna einkenni og borgin er þónokkurn spöl frá því að ráða við vandann. Þau viðbrögð sem þau hafa sýnt hafa ekki dugað til úrlausnar og það er mikið áhyggjuefni að stærsta sveitarfélag landsins ráði ekki við þetta vandamál.“

Sig­ríður Ólafs­dótt­ir, for­eldri barns sem veikt­ist mikið vegna mygl­unn­ar, sagði við Morgunblaðið um miðjan febrúar að ekk­ert sam­ráð væri milli borg­ar­inn­ar og skóla­stjórn­enda og for­eldra barna sem stunda nám við skól­ann.

„Eng­ar upp­lýs­ing­ar ber­ast til for­eldra barn­anna. Það eru eng­in úrræði sem standa okk­ur til boða. Ekk­ert sam­ráð haft við okk­ur, ekki neitt.“

Hún sagði einnig for­eldra­fé­lag og skólaráð Foss­vogs­skóla hafa beitt sér eft­ir fremsta megni í bar­átt­unni, en það sé afar erfitt fyr­ir þau að eiga við borg­ina. „Við erum bara fólk í sjálf­boðavinnu að eiga við risa­batte­rí hjá Reykja­vík­ur­borg.“

Falleinkunn borgarinnar og sérfræðinga

Karl Óskar Þráinsson hefur ásamt öðrum foreldrum barna í Fossvogsskóla útbúið tímalínu þar sem atburðarás í málinu er rakin. Karl veitti blaðamanni aðgang að henni og lýsti innihaldi hennar svona:

„Síðan tímalínan var uppfærð síðast var haldinn skólaráðsfundur með skóla- og frístundasviði, umhverfis- og skipulagssviði og ráðgjafa frá Verkís. Þar voru kynntar sláandi niðurstöður um að áfram finnist hættulegar myglutegundir í talsverðu magni víða í skólanum. Kom því sérstaklega á óvart að þrátt fyrir gríðarlega öflugt eftirlit og framúrskarandi verktaka, að sögn eigenda hússins, sé að finna ítrekað galla á sömu framkvæmd.

Salerni sem metin voru í mjög slæmu ástandi og með merki ljótra rakaskemmda í júnískýrslu Verkís, voru klippt út úr lokaskýrslu Verkís í september, sem dæmi um gagnafölsun og afvegaleiðingu sem ítrekað hefur verið lögð fyrir okkur í skólasamfélaginu. Annað dæmi er að við lok framkvæmda sl. sumars, gaf Verkís út aflátsbréf til umhverfis- og skipulagssviðs þar sem fullyrt var að frekari sýnataka væri algjörlega óþörf, húsnæðið væri í svo góðu ástandi. Sýnatökur í september og desember sýna án vafa að mat Verkís var kolrangt og falleinkunn fyrir viðkomandi sérfræðinga.

Yfirmenn umhverfis- og skipulagssviðs hafa stoltir handvalið hvern mann í þetta verkefni og telja enn enga ástæðu til að efast um færni viðkomandi einstaklinga til að ráða við vandann, þess heldur hvort þeir séu raunverulega vandanum vaxnir.

Þeir eru bara jafnskúffaðir og við hin. Aðstöðumunur þeirra og okkar er hins vegar gríðarlegur. Þeir (því þetta eru allt karlar sem koma að málinu) telja sig sjálfa vera best til þess fallna að halda áfram leiknum, með sprunginn bolta. Þeir eru búnir að mála sig út í horn gagnvart skólasamfélaginu og eru rúnir öllu trausti skjólstæðinga sinna.

Áfram er þó setið, hver á sínum stól, í umboði meirihluta kjörinna fulltrúa. Sá hópur pólitíkusa felur sig sjálfur á bak við sömu stóla og neitar að horfast í augu við kjörna fulltrúa skólasamfélagsins.“

Karl segir einnig að borgaryfirvöld hljóti að vera smám saman að átta sig á því að ekki sé hægt að segja að hvað sem er geti orsakað það að myglugró finnist þarna enn þá. Sveppurinn sem finnst í skólanum sé hitakær og vaxi ekki úti í náttúrunni. Það sé það sem Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur hafi sagt.

Þrif á myglu geta dreift henni frekar

Guðríður er einmitt sú sem unnið hefur með sýni fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem hún starfar. Guðríður ræddi við mbl.is og staðfestir að myglugró geti verið skaðleg þeim sem áður hafa fundið einkenni vegna myglu.

„Fyrir þessi börn sem eru næm og hafa orðið veik af því að vera í mygluðum aðstæðum, þau þola í raun og veru enga snertingu við sveppakyns efni, hvort sem það er dautt eða lifandi.

Þessi skólayfirvöld og þetta fólk sem hefur verið að sinna þessum framkvæmdum hefur eflaust náð að hreinsa heilmikið af gró en það gengur greinilega illa að finna þetta litla magn sem til þarf.

Þegar svona myglað efni er fjarlægt, eins og hefur verið gert þegar byrjað var á þessum viðgerðum, þá þarf að fara mjög varlega til að mengandi efni fari ekki á enn fleiri staði. Það er bara alls ekki auðvelt að finna allt efnið. Fólk sem er orðið næmt, eins og þessi krakkagrey, finnur bara strax einkenni þegar það kemur inn í rými sem er mengað. Þess vegna er best fyrir fjölskyldur, sem lenda í þessu með til dæmis heimili sín, að finna nýtt húsnæði sem þær þola.“

Guðríður Gyðja Eyjólfsdóttir sveppafræðingur.
Guðríður Gyðja Eyjólfsdóttir sveppafræðingur. Ljósmynd/Hjálmar S. Brynjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert