Jarðskjálftahrina heldur áfram á Reykjanesskaga og hafa átta skjálftar yfir 3 að stærð riðið yfir frá hádegi. Þar af var einn að stærð 4,1 klukkan 12:12 og annar klukkan 14:12 að stærð 4,2.
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands funda með almannavörnum síðdegis í dag og að sögn Einars Hjörleifssonar náttúruvársérfræðings verður mat lagt á nýjustu gögn áður en ákveðið verður um framhaldið.
Hátt í 12.000 skjálftar hafa riðið yfir frá því að skjálftahrina hófst skammt frá Keili á Reykjanesi 24. febrúar síðastliðinn.