Kristín Jónsdóttir, hópstjóri vöktunar og náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands, segir að nú sé fylgst vel með jarðskjálftasvæðinu á Reykjanesskaga í ljósi þess að líkur eru taldar á að kvikuinnskot hafi orðið.
Hvort kvikuinnskotið leiði á endanum til eldgoss er enn um sinn ekki gott að segja.
„Við verðum að hafa það í huga að svona hrinur hafa gengið yfir án þess að það sé eldvirkni, þannig að ég held að það sé erfitt að segja til um líkurnar á þessu. En það virðist vera opnun þarna og einfaldasta skýringin á því og sú líklegasta er að þarna sé kvikuinnskot,“ segir Kristín í samtali við mbl.is.
Ef til goss kæmi yrði það á svæðinu þar sem jarðskjálftavirknin er mest, þ.e. á milli norðurenda Fagradalsfjalls og Keilis. Ekki er mikil byggð á helsta átakasvæðinu en Vogar eru í næsta nágrenni.
„Hraunflæði mun ekki ógna byggð en það sem gæti orðið vesen ef það yrði þarna eldgos er gasmengun,“ segir Kristín. Enn er í raun óvíst hvort um kvikuinnskot sé að ræða, en Kristín segir að færsla sem orðið hefur á yfirborði jarðar sé svo mikil að einfaldasta skýringin sé kvikuinnskot.
Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði, sagði við mbl.is áðan að ef til vill þurfi að gera meira ráð en áður fyrir því að eldgos verði á Reykjanesskaga. Það sagði hann í ljósi ofangreindra vísbendinga um kvikuinnskot á svæðinu.
Páll sagði að upplýsingarnar geti allt eins breyst á morgun. Vísindaráð almannavarna fundar á morgun en frekari fundir eru ekki á dagskrá í kvöld, að sögn Kristínar.