Jörð skelfur og kraftar krauma undir niðri

Skjálftahrinan hefur færst nær Keili.
Skjálftahrinan hefur færst nær Keili. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna, segir að starfsfólk HS Veitna hafi ekki jafn miklar áhyggjur af þessari skjálftahrinu sem gengur nú yfir og þeirri sem gekk yfir á síðasta ári í grennd við Grindavík.

Af þeim innviðum sem HS Veitur sjá um að dreifa orku frá er orkuverið í Svartsengi í mestri hættu á að verða fyrir tjóni. Lagnir sem liggi til Voga á Vatnsleysuströnd séu ekki í mikilli hættu og ekki heldur vatnsból bæjarins sem liggur nálægt sjó.

Hraunflæðilíkön eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands gefa til kynna að líklegast muni hraun flæða um miðjan Reykjanesskaga, ef gjósa fer í kjölfar hrinunnar.

Vogar eru sú byggð sem er hvað næst hraunflæðinu samkvæmt líkani hópsins. Daníel Arason, staðgengill bæjarstjóra Voga, segir að bæjaryfirvöld séu róleg en fylgist þó vel með hræringunum. Sérfræðingar eru sammála um að enn gefi ekkert til kynna að gos sé í vændum en ekki sé hægt að útiloka neitt að svo stöddu.

Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að fyrst og fremst sé um jarðskjálftahrinu að ræða og ekki sé rætt um eldgos á þessum tímapunkti.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að gos á Reykjanesskaga yrði að öllum líkindum sprungugos með seigfljótandi hrauni. Þótt jarðskorpan á Reykjanesi sé þynnri en á mörgum stöðum á Íslandi fengju íbúar í nærliggjandi byggðum samt sem áður góðan fyrirvara á gosi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert