Yfir þúsund skjálftar hafa mælst á Reykjanesi frá miðnætti, þar af níu yfir 3 að stærð. Sá stærsti varð klukkan hálftvö í nótt, 4,9 að stærð.
Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að erfitt sé að segja til um hvort skjálftahrinan, sem staðið hefur yfir síðan um miðja síðustu viku, sé óvenjulöng. Það sem sé helst óvenjulegt sé að svo mikið finnist fyrir svo langri hrinu. Langar hrinur þekkist við Öskju og Herðubreið, en þær finnist sjaldnast í byggð.
Þá segir hún að eins og staðan sé núna séu engin merki um kvikuhreyfingar. Verið sé að fylgjast með þróun hrinunnar, sem hafi þó verið staðbundin hingað til.
Skjálftavirkni virðist áfram vera á pari við það sem var um helgina.