Standa stundum í nokkur ár

Páll Einarsson og Ásta Rut Hjartardóttir jarðeðlisfræðingar í vettvangsferð á …
Páll Einarsson og Ásta Rut Hjartardóttir jarðeðlisfræðingar í vettvangsferð á Reykjanesi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er svipur með þessu öllu saman, þessi hreyfing á flekaskilunum kemur í hviðum sem standa stundum í nokkur ár með 30 til 50 ára millibili. Við erum greinilega í miðri slíkri núna,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is, um jarðskjálftahrinuna sem nú stendur yfir á Reykjanesi.

Páll var staddur í Grindavík að kanna aðstæður þegar mbl.is sló á þráðinn hjá honum nú laust fyrir hádegi. Þar stendur til að reyna að komast að aðalupptakasvæði skjálftanna, sem ekki hefur tekist að gera síðan hrinan hófst um miðja síðustu viku, bæði vegna veðurs og vegna þess hve langt svæðið er frá nokkrum vegi.

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur birt sögulegt yfirlit Páls af skjálfta- og eldvirkni á Reykjanesi, en í september 1967 hófst þar öflug skjálftahrina þar sem meðal annars mynduðust sprungur. „Það varð mikil hrina í september 1967 sem olli gríðarmiklum breytingum á jarðhitasvæðinu og varð upphaf að ókyrrðartímabili sem stóð til 1973, þá í september varð líka mikil hrina á þeim slóðum sem skjálftarnir er núna,“ segir Páll.

Jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga um 10 leytið miðvikudaginn 24. febrúar …
Jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga um 10 leytið miðvikudaginn 24. febrúar 2021. mbl.is/kort

Meðal þess sem verður skoðað, komist vísindamenn að aðalupptakasvæði skjálftanna, er hvort þar hafi myndast sprungur. Páll telur það nokkuð líklegt.

Þegar blaðamaður ræddi við Pál var hann að skoða sprungur sem myndast hafa í Grindavíkurveginum í yfirstandandi skjálftahrinu. „Þetta eru sprungur í veginum en ekki bergsprungur, sennilega afleiðingar af titringi,“ segir Páll og að það sé langt því frá að þær valdi einhverri hættu. Holurnar í veginum séu miklu stærri.

Flekaskilin bæði eld- og skjálftavirk

Meðal þess sem verið er að skoða er hvort hrinan nú geti verið undanfari eldvirkni á svæðinu. Engin eldvirkni hefur verið þar síðan um 1200. „Eldvirknin virðist líka koma í hviðum á nokkurra hundruð ára fresti og standa í nokkur ár. Það er verið að reyna að skera úr um hvort slík hviða sé að bresta á, en hér var mikil virkni í upphafi Íslandsbyggðar, eða um 10 til 15 gos á fyrstu öldum byggðarinnar,“ segir Páll.

Þannig séu liðin um 800 ár frá síðustu eldvirkni og því þyrfti enginn að verða hissa ef eldvirkni tæki sig upp á svæðinu fljótlega. „Það kemur að því einhvern tímann. Þessi flekaskil eru bæði eldvirk og skjálftavirk. Það er þeirra sérstaða.“

Páll var ekki ýkja bjartsýnn á að hægt yrði að …
Páll var ekki ýkja bjartsýnn á að hægt yrði að komast á svæðið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ekki hefur tekist að komast á svæðið þar sem aðalupptök …
Ekki hefur tekist að komast á svæðið þar sem aðalupptök skjálftahrinunnar eru. Það verður reynt í dag. mbl.is/Þorsteinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert