Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, skorar á stjórnvöld hér að fara að dæmi Breta og lengja bilið á milli bólusetninga gegn Covid-19 í þrjá mánuði. Þannig sé hægt að ljúka fyrri bólusetningu landsmanna mun fyrr en ella, minnka hratt hömlur innanlands og gefa tóninn fyrir gott ferðamannasumar. Mikill ferðavilji sé meðal fólks og bólusettum fjölgi hratt.
Segir Jón Ívar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að í ljósi nýjustu gagna sé ekki siðferðilega verjandi að halda áfram með bólusetningar með því lagi sem stefnt hafi verið að. Forsendan fyrir þessu er að seinni skammtur bóluefna auki vernd gegn Covid-19 ekki mjög mikið. Jafnframt að þeir fáu sem sýkist eftir fyrri bólusetningu fái yfirleitt væg einkenni og alvarleg veikindi séu afar sjaldgæf.