Erla Wigelund, kaupmaður í Verðlistanum í Reykjavík, lést á Hrafnistu Laugarási í Reykjavík 22. febrúar síðastliðinn, 92 ára að aldri.
Erla fæddist í Grindavík 31. desember 1928, dóttir hjónanna Vilborgar Dagbjartsdóttur húsfreyju og Peters Wigelund skipasmiðs.
Fljótlega eftir fæðingu Erlu flutti fjölskyldan til Keflavíkur og síðar til Reykjavíkur.
Erla var í Barnaskóla Keflavíkur, í barnaskóla í Reykjavík og lauk gagnfræðaprófi frá Ingimarsskóla við Lindargötu. Erla starfaði um skeið á lögfræðistofu í Reykjavík og sinnti síðan verslunarstörfum í snyrtivöruversluninni Oculus í Austurstræti. Um þær mundir sótti hún nám við Leiklistarskóla Ævars R. Kvaran en þar kynntist hún lífsförunaut sínum, Kristjáni Kristjánssyni tónlistarmanni. Kristján var hljómsveitarstjóri frægustu dans- og dægurlagahljómsveitar landsins á þeim árum, KK-sextettsins.
Erla og Kristján stofnuðu og starfræktu verðlista sem í upphafi var pöntunarlisti sem fólki gafst kostur á að panta upp úr og fá sent í pósi. Þau hjónin tóku síðan upp á því að ferðast um landið og selja fatnað til fólks á landsbyggðinni. Bernskudraumur Erlu rættist svo þegar þau hjónin opnuðu verslunina Verðlistann við Laugalæk í Reykjavík árið 1965. Erla stóð vaktina í Verðlistanum í 52 ár eða allt til ársins 2014.
Erla var fyrsti formaður lionsklúbbsins Engeyjar. Hún sinnti ýmsum trúnaðarstörfum í þágu félagsins og var gerð að heiðursfélaga árið 1990. Erla var einnig ötull talsmaður Kaupmannasamtaka Íslands og var sæmd viðurkenningu samtakanna. Árið 2012 hlaut hún svo þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri fyrir ævistarf sitt og fyrir að vera konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd.
Eiginmaður Erlu var Kristján Kristjánsson, hann lést 2008. Þau eignuðust þrjú börn, Þorbjörgu, Pétur og Sigrúnu Júlíu.