Landspítalinn biður fólk sem orðið hefur fyrir minni slysum eða glímir við minni háttar veikindi að leita frekar á heilsugæslu eða Læknavaktina en bráðamóttökuna í Fossvogi vegna mikils álags og tilheyrandi forgangsröðunar.
„Staðan í innlagnarmálum á Landspítalanum í dag er því miður mjög þung. Það eru núna tugir sjúklinga sem bíða innlagnar á legudeildir Landspítalans og því miður komast ekki þangað og eru því vistaðir á bráðamóttökunni,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir bráðalækninga.
Fólk sem leitar á bráðamóttökuna vegna vægari slysa eða veikinda getur búist við afar langri bið eftir þjónustu og ætti þess vegna að reyna að leita annað. Séu mál metin alvarleg á heilsugæslu verði þau færð yfir á bráðamóttökuna.