„Þetta er sama staða og í gær,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Áfram hristist jörð á Reykjanesskaga en rúmlega 800 skjálftar hafa mælst þar frá miðnætti.
Rétt um klukkan 3 í nótt mældust tveir skjálftar yfir stærð 4. Sá fyrri var klukkan 02:53 1,3 km suðvestur af Keili og var 4,3 að stærð. Sá seinni var í Fagradalsfjalli, klukkan 03:05, 4,6 að stærð.
Alls mældust fjórir skjálftar yfir 4 að stærð í nótt og 15 yfir 3.
Jarðvísindamenn telja nú meiri líkur á eldgosi á Reykjanesskaga en þeir töldu fyrr í skjálftahrinunni sem hófst þar í síðustu viku. Ástæðan fyrir því eru gervihnattarmyndir sem vísindanefnd almannavarna bárust í gær, þar sem sjá mátti miklar færslur á yfirborði jarðar á jarðskjálftasvæðinu.
Bryndís segir að gasmælingar verði gerðar á svæðinu í grennd við Fagradalsfjall og Keili og að enn fremur verði mælanetið sem mælir jarðhreyfingar mögulega þétt.