Eftir að slakað var á samkomutakmörkunum í síðustu viku mega nú 200 koma saman við kirkjuathafnir. Hins vegar hefur sú breyting verið gerð að nú þarf að skrá þátttakendur á alla viðburði í kirkjum þar sem fleiri koma saman en 50.
„Þetta er gert til að auðvelda smitrakningu ef slíkt kemur upp. Við höfum verið mjög skýr með það að við geymum þessi gögn í tvær vikur og eyðum þeim svo,“ segir Pétur Georg Markan samskiptastjóri Biskupsstofu.
Nú fara fermingar í hönd og þar eins og í almennum messum er undir venjulegum kringumstæðum altarissakramentið haft um hönd. Eftir að hafa kynnt mér málið tel ég að við getum opnað fyrir þann möguleika að taka aftur upp altarisgöngur,“ segir í bréfi Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, til presta og kirkjunnar fólks.
Með vorinu koma fermingarnar og í ár geta trú- og lífsskoðunarfélög haft athafnir fyrir allt að 200 manns. Um veislur gilda þó aðrar reglur og núverandi takmarkanir á samkomum leyfa 50 einstaklingum að koma saman. Þær gilda til og með 17. mars nk.. Börn fædd eftir 2005 eru undanskilin og einnig ættingjar og vinir sem vitað er að hafi fengið Covid-19. Fermingarveislur verða því mögulega að vera skipulagðar með öðrum hætti en tíðkast hefur en á vefnum covid.is er að finna leiðbeiningar fyrir fermingarveislur.