Starfsmenn Veðurstofunnar týndir

Talið er að fólkið sé einhvers staðar í kringum Keili …
Talið er að fólkið sé einhvers staðar í kringum Keili en meðfylgjandi mynd var tekin á vettvangi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umfangsmikil leit björgunarsveita stendur yfir á Reykjanesskaga í grennd við Keili, þar sem karl og kona eru týnd. Aðstoð er að berast frá höfuðborgarsvæðinu og búið er að ræsa þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Haraldur Haraldsson svæðisstjóri björgunarsveita á Suðurnesjum staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Veðurstofan staðfestir við mbl.is að umrætt fólk sé starfsfólk stofnunarinnar, sem var við rannsóknir á jarðskjálftasvæðinu.

Vísindamennirnir fóru á svæðið í dag til rannsókna á gasi. Þeir síðustu sem sáu til annars þeirra voru blaðamaður og ljósmyndari mbl.is á staðnum. Mögulegt er að þriðji aðili sé einnig týndur.

Nokkrar bifreiðar björgunarsveitarinnar eru á svæðinu og viðbúnaður mikill.

Það er mjög slæmt veður á svæðinu og viðbragðsaðilar eru að missa skyggnið. „Við óttumst að þau verði blaut og köld,“ segir Haraldur.

Talið er að fólkið sé einhvers staðar í kringum Keili, þar sem mikil jarðskjálftavirkni hefur verið um langt skeið og hætta kann að vera á eldgosi.

Uppfært kl. 18.08: 

Starfsmennirnir eru fundnir og sagt er nánar frá því hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert