Reykjanesskaginn er þekkt jarðskjálftasvæði. Þar hafa stórir jarðskjálftar átt upptök, meðal annars í Brennisteinsfjöllum. Spurningin nú er hvort þar verði stórir jarðskjálftar í framhaldi af atburðarásinni vestar á Reykjanesskaga.
Tíðir jarðskjálftar fundust á Reykjanesi á árunum 1925-1928. Meðal annars skemmdist Reykjanesviti í jarðskjálfta 25. október 1926 og slokknaði á vitanum og sprungur komu í vitahúsið. Sprungur mynduðust í jörð og breytingar urðu á hverum.
Stærsti jarðskjálfti sem vitað er að orðið hafi á Reykjanesskaga varð svo 23. júlí 1929. Hann var 6,3 stig og fannst víða um land. Upptök hans voru nálægt Brennisteinsfjöllum, líklega á svokölluðu Hvalhnúksmisgengi. Þessi skjálfti olli miklu tjóni í Reykjavík og víðar eins og greint var frá í Morgunblaðinu daginn eftir. „Stundarfjórðungi fyrir klukkan 6 í gær, kom hjer í Reykjavík svo harður jarðskjálftakippur, að menn muna hjer ekki annan eins. Hús hristust svo að brakaði í þeim og fjölda fólks var nóg boðið svo það þusti út á göturnar, sumpart til að bjarga sjer, ef húsin skyldu hrynja, sumpart til þess að verða sjónarvottar að atburðum þeim, er fyrir kæmi í grendinni. Talið er að kippurinn hafi staðið 35-40 sekúndur. Er það langur jarðskjálftakippur.“
Miklar skemmdir urðu á húsum. Mestar skemmdir virtust hafa orðið á þeim sem hlaðin voru úr grásteini eins og Alþingishúsinu og Landsímastöðinni. Sprungur sáust í flestum herbergjum þinghússins „og hrundi nokkuð niður af loftlistum - einkum í Neðrideild“. Brestur kom í konungsmerkið yfir innganginum og datt moli úr því á gangstéttina.
Í Landsímahúsinu sprungu veggir og reykháfur hrundi líkt og á fleiri húsum í bænum. Blaðið hafði ekki tölu á þeim reykháfum sem hrundu. Sprungur komu í veggi nokkurra steinsteyptra húsa. Munir duttu úr hillum og vörur sem var stillt upp í búðargluggum hrundu í hrúgur. Rúður í nokkrum búðargluggum sprungu. Mesta tjónið varð í glervörubúðum en þar brotnaði all mikið af vörum.
Hús sveifluðust til með braki og brestum eins og væri ofsarok en veður var hið besta, blæjalogn og sólskin. Allmikil bára kom á Tjörnina og gaus upp úr henni óþefur. Götur og gangstéttir gengu til. Sprungur komu í hafnargarðinn og hafnarbakkann í Reykjavík.
Jarðskjálftinn fannst austur að Skeiðarársandi, vestur á Snæfellsnes og norður á Borðeyri, að því er Morgunblaðið hafði frétt. Ekki fréttist af neinum slysum á fólki. Annar kippur, miklu vægari, kom klukkan rúmlega sjö og sá þriðji sem var þeirra vægastur kom klukkan átta um kvöldið.
Jarðskjálfti að stærð 6,0 varð svo 5. desember 1968. Upptök hans voru líklega á svipuðum slóðum og stóri jarðskjálftinn varð 1929. Skjálfti þessi fannst víða um land. Hann olli minni háttar tjóni í Reykjavík og gamlar sprungur opnuðust í húsum í Hafnarfirði.