Viðbragðstími lögreglu og samskipti hennar við fjölmiðla í tengslum við hvarf og andlát Birnu Brjánsdóttur í janúar árið 2017 er til skoðunar hjá nefnd um eftirlit með störfum lögreglu.
Skúli Þór Gunnsteinsson, formaður nefndarinnar, segir að verið sé að skoða hvernig verklagi hafi verið fylgt þegar hvarfið var tilkynnt og þá hvort viðbragðstími hafi verið eðlilegur. „Skiptir máli hver það er sem kemur og tilkynnir hvarf? Fer viðbragðstími eftir því? Þetta er bara það sem við munum skoða og höfum í raun ekki gögn núna til þess að styðjast við og vitum ekkert nánar um málið eins og sakir standa,“ segir Skúli.
Gögn málsins hafa borist nefndinni. Að sögn Skúla barst annars vegar beiðni frá einstaklingi „úti í bæ“ um skoða samskipti lögreglu við fjölmiðla í málinu. Hins vegar barst kvörtun frá aðstandendum Birnu sem vildu láta kanna verklagsreglur varðandi viðbragðstíma lögreglu.
Tilmæli nefndarinnar eru ekki bindandi en líkt og er með umboðsmann Alþingis t.a.m. er hefð fyrir því að farið sé eftir fyrirmælum hennar. Þegar nefndin fær kvörtun til sín er hún yfirfarin og gögn skoðuð. Ef kvörtunin er tilhæfulaus, þá er málinu lokið en ef kvörtun sé það ekki er málið sent áfram til viðkomandi lögreglustjóra til meðferðar og jafnvel send óbindandi tilmæli, telji nefndin tilefni til. Síðan fylgist nefndin með því að málið sé afgreitt hjá viðkomandi lögreglustjóra.