Banni við flugi dróna á svæðinu sem markast af Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi, Krýsuvíkurleið og Suðurstrandarvegi verður aflétt klukkan 19.00 í kvöld. Það var sett í gær af öryggisástæðum vegna hugsanlegra eldsumbrota á Reykjanesskaga.
Banninu verður aflétt þegar könnunarflugi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra lýkur klukkan 19.00 í kvöld.
Ef til eldsumbrota kæmi á næstu dögum, vikum eða mánuðum sem krefðist lokunar á ný mun tilkynning verða send, kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.
Í gær var einnig ákveðið að fréttamenn þyrftu að vera í fylgd björgunarsveitar til að fara inn fyrir lokanir á Keilisvegi. Þeim lokunum hefur verið aflétt. Athygli er vakin á lokunum á svæðinu á vef Vegagerðarinnar.