Þorbjörg Ágústsdóttir, jarðskjálftafræðingur hjá ÍSOR, og Sveinbjörn Steinþórsson, tæknimaður á Jarðvísindastofnun, unnu að því í dag að tengja jarðskjálftamæli Cambridge-háskóla við skjálftamælanet Veðurstofunnar.
„Þetta er búið að vera þvílíkt vesen,“ segir Þorbjörg í samtali við blaðamann mbl.is.
„En núna er hann tengdur.“
Mælirinn hefur ekki áður verið tengdur neti Veðurstofunnar, þrátt fyrir að vera allra næstur jarðskjálftavirkninni sem að undanförnu hefur mest mælst suðvestur af Keili. Hann er þannig aðeins spölkorn frá þeim stað sem valinn var fyrir vefmyndavél mbl.is.
„Þau fá því gögnin núna í sístreymi, sem gagnast meðal annars til að ákvarða dýpt og staðsetningar skjálftanna sem verða,“ segir Þorbjörg. Nákvæmari mælingar ættu því að fást framvegis.
Þorbjörg var ekki að störfum fyrir ÍSOR í dag heldur lagði hún Veðurstofunni lið með þekkingu sinni. Hún stundaði áður doktorsnám við Cambridge-háskóla.
Aðspurð hvað taki nú við segist hún munu fara að vinna að gögnum.
Þorbjörg og Sveinbjörn eru vön að vinna saman. Þau voru til að mynda þau fyrstu til að berja augum eldgosið í Holuhrauni árið 2014. Gátu þau fyrst vísindamanna staðfest að gos væri hafið.
„Það sást ekkert á tækjunum hjá Veðurstofunni, þetta var svo lítið,“ segir Þorbjörg. „Það sást varla neitt,“ segir hún.
Þau voru þar stödd einnig við vinnu á skjálftamælaneti Cambridge-háskóla.
Ólíkt því sem þá var er Þorbjörg nú gengin nokkra mánuði. „Það verður að þjálfa þetta strax frá byrjun,“ segir hún og hlær um leið og hún strýkur sér um kviðinn.