Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fulltrúar fasteignaþróunarfélagsins Spildu tóku í dag skóflustungu að nýju íbúðarhúsi í Jöfursbási 7. Framkvæmdirnar marka upphafið að byggingu 6-700 íbúða á vegum félagsins í Gufunesi en þar rís nú byggð í bland við kvikmyndaþorpið, þar sem áður var iðnaðarhverfi.
Í fyrsta áfanga verða byggðar 73 íbúðir í þremur húsum. Eru þær af ýmsum stærðum, á bilinu 2-5 herbergja (50-120 fm) en flestar eru þær þriggja herbergja og í kringum 85 fm. Fylgir flestum íbúðum bílastæði í bílakjallara. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúðir verði afhentar í árslok 2022.
Haft er eftir Önnu Sigríði Arnardóttur, framkvæmdastjóra Spildu, í tilkynningu að skóflustungan marki tímamót hjá félaginu. „Við erum spennt að hefjast handa við að byggja upp íbúðabyggð á þessum einstaka stað í höfuðborginni. Landslagið er einstakt, vogskornir klettar, strendur með svörtum og gylltum sandi, fuglalíf og útsýni yfir Geldinganes, Viðey, Esju og miðborgina,“ segir Anna. Á sama tíma séu allir innviðir til staðar enda svæðið í gamalgrónu hverfi, Grafarvogi.