„Hrinan í gær virðist gengin yfir,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, við mbl.is. Hann sat fund vísindaráðs almannavarna síðdegis og segir ekkert benda til goss „akkúrat núna“.
Áfram er gert ráð fyrir skjálftavirkni á Keilis-svæðinu en hún virðist hafa færst aðeins suðvestur í átt að Fagradalsfjalli í dag. Þorvaldur segir hrinuna nú í þeim farvegi sem hún var fyrir svokallaðan óróapúls í gær.
Ef staðan núna er borin saman við hvernig hún var fyrir sólarhring eru þá mun minni líkur á gosi?
„Það er ekkert sem bendir til þess að það sé að koma gos akkúrat núna,“ segir Þorvaldur. Svo virðist sem óróahrinan í gær tengist aukinni innspýtingu á kviku í kerfinu í stuttan tíma.
Þótt það gjósi ekki „akkúrat núna“ eins og Þorvaldur orðar það segir hann eitt öruggt:
„Það kemur að því að það gýs en það virðist ekki vera að koma alveg á núinu. Það mun gjósa á Reykjanesi, það er alveg á hreinu. Þetta er virkt svæði og við þurfum að læra að búa með þessu. Hvenær gýs aftur? Það er ómögulegt að segja til um það.“