Enginn vildi hjúkrunarheimilið, sem endar hjá HSU

Á Hraunbúðum er rými fyrir 31 íbúa.
Á Hraunbúðum er rými fyrir 31 íbúa. mbl.is/Sigurður Bogi

Heilbrigðisstofnun Suðurlands tekur við rekstri hjúkrunarheimilisins Hraunbúða í Vestmannaeyjum 1. apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Vestmannaeyjabær hefur séð um rekstur hjúkrunarheimilisins undanfarin ár, en bærinn sagði nýverið upp rekstrarsamningi við ríkið. Rekstur heimilisins var í kjölfarið boðinn út, en engin tilboð bárust og verður Heilbrigðisstofnun Suðurlands því falinn reksturinn.

Greint var frá því í gær að Heilbrigðisstofnun Austurlands tæki um mánaðamót við rekstri hjúkrunarheimilanna Hulduhlíðar á Eskifirði og Uppsala á Fáskrúðsfirði en sveitarfélagið Fjarðabyggð, sem áður sá um reksturinn, hafði einnig sagt upp samningi sínum við ríkið.

Auk þessara tveggja hafa sveitarfélögin Akureyrarbær og Höfn nýverið sagt upp samningi sínum um rekstur hjúkrunarheimila. 

Umræður um rekst­ur hjúkr­un­ar­heim­il­anna og fjár­mögn­un þeirra rötuðu ný­lega í umræður á þingi, en þar tók­ust þau Logi Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, og Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra á um málið og sakaði Logi rík­is­stjórn­ina um „skort­stefnu“ þegar kæmi að hjúkr­un­ar­heim­il­um. Sveitarfélög hafi enda þurft að borga með rekstri hjúkrunarheimila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert