Hæstiréttur staðfestir 480 milljóna króna sekt

Málinu, sem hófst árið 2012 með kæru til Samkeppniseftirlitsins, er …
Málinu, sem hófst árið 2012 með kæru til Samkeppniseftirlitsins, er nú lokið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar þess efnis að Mjólkursamsalan þurfi að greiða ríkissjóði 480 milljónir króna vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu með því að selja keppinautum sínum hrámjólk á mun hærra verði en Mjólkursamsalan sjálf og tengdir aðilar þurftu að greiða.

Dómurinn var kveðinn upp í Hæstarétti fyrr í dag en í honum kemur fram að Mjólkursamsalan hafi mismunað viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og þannig veikt samkeppnisstöðu þeirra og með því brotið með alvarlegum hætti gegn samkeppnislögum.

Þá hafi sú mikla mismunun sem var á verðlagningu Mjólkursamsölunnar til ótengdra aðila og verði til eigin framleiðslu falið í sér alvarlegan og langvarandi verðþrýsting sem hafi verið til þess fallinn að verja markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins.

Áfrýjunarnefnd ógilti tvo úrskurði

Málið hófst árið 2012 þegar KÚ mjólkurbú sendi athugasemd til Samkeppniseftirlitsins árið 2012 um muninn á verði sem KÚ mjólkurbú þurfti að greiða fyrir hrámjólk, sem er grundvallarhráefni við framleiðslu á mjólkurvörum, samanborið við aðila tengda Mjólkursamsölunni. Hafði KÚ af misgáningi fengið sendan reikning sem átti að fara til Mjólku.

Samkeppniseftirlitið lagði 370 milljóna króna sekt á Mjólkursamsöluna árið 2014 en áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi úrskurðinn úr gildi og lagði fyrir eftirlitið að rannsaka málið frekar.

Að þeirri rannsókn lokinni var 480 milljóna króna sekt lögð á Mjólkursamsöluna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála ógilti þann úrskurð sömuleiðis fyrir utan MS var gert að greiða 40 milljónir króna vegna brota á upplýsingaskyldu.

Því næst fór málið fyrir dómstóla þar sem úrskurður Samkeppniseftirlitsins, um sekt að fjárhæð 480 milljónir króna, var staðfestur á öllum dómsstigum.

Hefur ekki bein áhrif á starfsemina

Mjólkursamsalan sendi frá sér fréttatilkynningu eftir dómsuppkvaðningu en í henni kemur fram að dómsniðurstaðan snúi að afmörkuðum ágreiningi um túlkum laga en hún hafi ekki bein áhrif á núverandi starfsemi. Þegar málið hafi komið upp fyrir tæpum áratug hafi skipulagi og framkvæmd á sölu á hrámjólk verið breytt.

Þar segir einnig að fyrirtækið muni fara nánar yfir röksemdir Hæstaréttar áður en það tjáir sig frekar efnislega um dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka