Segja trúnaðarbrest í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Jón Þór Ólafsson, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í ræðustól …
Jón Þór Ólafsson, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í ræðustól á þingi.. mbl.is/​Hari

Innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis ríkir mikil ólga vegna fjölmiðlaviðtala sem Jón Þór Ólafsson, formaður nefndarinnar, og Andrés Ingi Jónsson veittu eftir fund með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í gær, en þeir eru báðir þingmenn Pírata. Eru þeir sakaðir um að hafa hallað réttu máli um það sem þar fór fram, og bæði notfært sér trúnað um fundina og rofið hann. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að nefndarmenn hafi fært málið í tal við forseta Alþingis, en þá má líklegt telja að það verði tekið upp í forsætisnefnd þingsins.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Jón Þór hafi brugðist formannsskyldum sínum svo ákaflega að fullkominn trúnaðarbrestur sé í nefndinni. Aðrir nefndarmenn, bæði í stjórnarliði og stjórnarandstöðu, taka undir það í samtölum við mbl.is og segja þá mynd, sem þeir félagar hafi dregið upp í fjölmiðlum, engan veginn rétta. Þeir telja að með þessu hafi Jón Þór og Andrés Ingi grafið undan hlutverki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með því að brjóta trúnað á gestum nefndarinnar.

Óli Björn telur að þar að baki búi pólitísk heift í garð andstæðings, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Annar nefndarmaður minnti hins vegar á að nú væri prófkjör hjá pírötum.

Fullkominn trúnaðarbrestur

 „Jón Þór Ólafsson hefur brugðist skyldum sínum sem nefndarformaður með dylgjum og rangfærslum um það sem fram hefur komið á fundum nefndarinnar,“ segir Óli Björn um viðtal, sem birtist við Jón Þór í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöld. „Það er því fullkominn trúnaðarbrestur milli mín og hans. Störf mín í nefndinni munu eðlilega taka mið af því á meðan Jón Þór situr sem formaður.“

Orð sem Andrés Ingi lét falla í öðru vitali við Ríkisútvarpið eftir fundinn með lögreglustjóra þykir nefndarmönnum þó ekki minna alvarleg, hann hafi endursagt og túlkað orð gests á lokuðum nefndarfundi, sem hafi gengið þvert á það sem gesturinn hafi sagt með skýrum hætti. Burtséð frá málinu, sem þar var rætt, láta nefndarmenn í ljósi áhyggjur af því að nefndin geti varla vænst þess að fá til sín gesti til þess að tala í hreinskilni og trúnaði þegar svona gerist.

Efast um drengskap pírata

„Trúverðugleiki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur beðið hnekki með þessari framkomu,“ segir Óli Björn. „Gestir sem koma fyrir nefndina hafa enga tryggingu lengur fyrir því að ákvæði þingskaparlaga um trúnað haldi eða upplýsingar sem þeir veita séu ekki nýttar í pólitískum tilgangi með útúrsnúningi og dylgjum. Og þar með verður nefndin ófær um að sinna skyldum sínum.“

Fundir nefndarinnar eru bundnir trúnaði, svo óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta á lokuðum fundum hennar. Á því hnykkir Óli Björn: „Það lýsir ekki miklum drengskap í garð annarra nefndarmanna eða gesta að nýta það sem fram fer á lokuðum fundum til rangfærslna í óstjórnlegri löngun til að koma höggi á pólitískan andstæðing.“ Óli Björn bætir við að þetta sé því miður ekki í fyrsta sinn sem píratar reyni að breyta stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í „pólitískan rannsóknarrétt, þar sem formaður misbeitir trúnaðar- og valdastöðu.“

Á umræddum fundum, sem haldnir voru að beiðni Andrésar Inga Jónssonar, var grennslast fyrir um hvað dómsmálaráðherra og lögreglustjóra fór á milli í símtölum á aðfangadag síðastliðnum, en þá hafði óvenjuleg færsla í „dagbók lögreglunnar“ komist í hámæli fjölmiðla. Hún greindi frá ætluðu sóttvarnarbroti í Ásmundarsal á Þorláksmessu, þar sem „háttvirtur ráðherra“ hefði verið meðal gesta.

Þetta er ekki eina álitamálið, sem upp hefur komið vegna trúnaðar á nefndafundum Alþingis. Skemmst er að minnast athugasemda við málflutning Helgu Völu Helgadóttur, formanns Velferðarnefndar, í fjölmiðlum, en einnig hefur verið kvartað undan því að umræður hafi lekið út úr forsætisnefnd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert