Segja trúnaðarbrest í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Jón Þór Ólafsson, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í ræðustól …
Jón Þór Ólafsson, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í ræðustól á þingi.. mbl.is/​Hari

Inn­an stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is rík­ir mik­il ólga vegna fjöl­miðlaviðtala sem Jón Þór Ólafs­son, formaður nefnd­ar­inn­ar, og Andrés Ingi Jóns­son veittu eft­ir fund með lög­reglu­stjóra höfuðborg­ar­svæðis­ins í gær, en þeir eru báðir þing­menn Pírata. Eru þeir sakaðir um að hafa hallað réttu máli um það sem þar fór fram, og bæði not­fært sér trúnað um fund­ina og rofið hann. Morg­un­blaðið hef­ur heim­ild­ir fyr­ir því að nefnd­ar­menn hafi fært málið í tal við for­seta Alþing­is, en þá má lík­legt telja að það verði tekið upp í for­sæt­is­nefnd þings­ins.

Óli Björn Kára­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, seg­ir að Jón Þór hafi brugðist for­manns­skyld­um sín­um svo ákaf­lega að full­kom­inn trúnaðarbrest­ur sé í nefnd­inni. Aðrir nefnd­ar­menn, bæði í stjórn­ar­liði og stjórn­ar­and­stöðu, taka und­ir það í sam­töl­um við mbl.is og segja þá mynd, sem þeir fé­lag­ar hafi dregið upp í fjöl­miðlum, eng­an veg­inn rétta. Þeir telja að með þessu hafi Jón Þór og Andrés Ingi grafið und­an hlut­verki stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar með því að brjóta trúnað á gest­um nefnd­ar­inn­ar.

Óli Björn tel­ur að þar að baki búi póli­tísk heift í garð and­stæðings, Áslaug­ar Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur dóms­málaráðherra. Ann­ar nefnd­armaður minnti hins veg­ar á að nú væri próf­kjör hjá pír­öt­um.

Full­kom­inn trúnaðarbrest­ur

 „Jón Þór Ólafs­son hef­ur brugðist skyld­um sín­um sem nefnd­ar­formaður með dylgj­um og rang­færsl­um um það sem fram hef­ur komið á fund­um nefnd­ar­inn­ar,“ seg­ir Óli Björn um viðtal, sem birt­ist við Jón Þór í frétt­um Rík­is­sjón­varps­ins í gær­kvöld. „Það er því full­kom­inn trúnaðarbrest­ur milli mín og hans. Störf mín í nefnd­inni munu eðli­lega taka mið af því á meðan Jón Þór sit­ur sem formaður.“

Orð sem Andrés Ingi lét falla í öðru vitali við Rík­is­út­varpið eft­ir fund­inn með lög­reglu­stjóra þykir nefnd­ar­mönn­um þó ekki minna al­var­leg, hann hafi end­ursagt og túlkað orð gests á lokuðum nefnd­ar­fundi, sem hafi gengið þvert á það sem gest­ur­inn hafi sagt með skýr­um hætti. Burt­séð frá mál­inu, sem þar var rætt, láta nefnd­ar­menn í ljósi áhyggj­ur af því að nefnd­in geti varla vænst þess að fá til sín gesti til þess að tala í hrein­skilni og trúnaði þegar svona ger­ist.

Ef­ast um dreng­skap pírata

„Trú­verðug­leiki stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar hef­ur beðið hnekki með þess­ari fram­komu,“ seg­ir Óli Björn. „Gest­ir sem koma fyr­ir nefnd­ina hafa enga trygg­ingu leng­ur fyr­ir því að ákvæði þing­skap­ar­laga um trúnað haldi eða upp­lýs­ing­ar sem þeir veita séu ekki nýtt­ar í póli­tísk­um til­gangi með út­úr­snún­ingi og dylgj­um. Og þar með verður nefnd­in ófær um að sinna skyld­um sín­um.“

Fund­ir nefnd­ar­inn­ar eru bundn­ir trúnaði, svo óheim­ilt er að vitna til orða nefnd­ar­manna eða gesta á lokuðum fund­um henn­ar. Á því hnykk­ir Óli Björn: „Það lýs­ir ekki mikl­um dreng­skap í garð annarra nefnd­ar­manna eða gesta að nýta það sem fram fer á lokuðum fund­um til rang­færslna í óstjórn­legri löng­un til að koma höggi á póli­tísk­an and­stæðing.“ Óli Björn bæt­ir við að þetta sé því miður ekki í fyrsta sinn sem pírat­ar reyni að breyta stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd í „póli­tísk­an rann­sókn­ar­rétt, þar sem formaður mis­beit­ir trúnaðar- og valda­stöðu.“

Á um­rædd­um fund­um, sem haldn­ir voru að beiðni Andrés­ar Inga Jóns­son­ar, var grennsl­ast fyr­ir um hvað dóms­málaráðherra og lög­reglu­stjóra fór á milli í sím­töl­um á aðfanga­dag síðastliðnum, en þá hafði óvenju­leg færsla í „dag­bók lög­regl­unn­ar“ kom­ist í há­mæli fjöl­miðla. Hún greindi frá ætluðu sótt­varn­ar­broti í Ásmund­ar­sal á Þor­láks­messu, þar sem „hátt­virt­ur ráðherra“ hefði verið meðal gesta.

Þetta er ekki eina álita­málið, sem upp hef­ur komið vegna trúnaðar á nefnda­fund­um Alþing­is. Skemmst er að minn­ast at­huga­semda við mál­flutn­ing Helgu Völu Helga­dótt­ur, for­manns Vel­ferðar­nefnd­ar, í fjöl­miðlum, en einnig hef­ur verið kvartað und­an því að umræður hafi lekið út úr for­sæt­is­nefnd.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert