Skúlptúr Sigurjóns seldur fyrir metfé

Skúlptúr Sigurjóns, sem seldist á 7,8 milljónir króna.
Skúlptúr Sigurjóns, sem seldist á 7,8 milljónir króna. Ljósmynd/Fold

Metfé fékkst fyrir skúlptúr eftir Sigurjón Ólafsson á sérstöku vefuppboði uppboðshússins Foldar á dögunum. Verkið, Fótboltamenn, seldist á 7,8 milljónir króna að uppboðsgjöldum meðtöldum og er það hæsta verð sem fengist hefur fyrir skúlptúr á uppboði á Íslandi.

Sigurjón gerði skúlptúrinn árið 1936 en hann ætti að vera Skagamönnum að góðu kunnur því stækkuð útgáfa hans er á Faxatorgi á Akranesi. Eintakið sem nú var boðið upp var eitt af sex sem gerð voru og seld til stuðnings Listasafni Sigurjóns Ólafssonar árið 1991.

Meðal annarra verka sem seld voru á uppboðinu var olíumálverk eftir Júlíönu Sveinsdóttur sem seldist á 1.400 þúsund krónur. Þá seldist verk eftir Louisu Matthíasdóttur á 3,3 milljónir og olíumálverk eftir Karl Kvaran á 3,7 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert