Fjórir karlmenn hafa verið ákærðir fyrir kynferðisbrot gegn 36 ára gamalli íslenskri konu í ferðamannabænum Puerto Rico á Gran Canaria. Spænska dagblaðið La Provincia greinir frá þessu.
Árásin átti sér stað á föstudagskvöld í hverfinu Agua la Perra. Konan lagði fram kæru á sunnudag og voru mennirnir handteknir degi síðar. Mennirnir komu fyrir dómara í dag, sem úrskurðaði þá í gæsluvarðhald og eiga þeir þess ekki kost að losna gegn tryggingu.
La Provincia segir að íslenska konan hafi búið í Puerto Rico ásamt fjölskyldu sinni til margra ára. Hún hafi leitað til læknis í kjölfar árásarinnar og lagt fram læknisvottorð um áverka á líkama sínum sem renna stoðum undir frásögn hennar.