Líklegustu sviðsmyndirnar varðandi mögulegt eldgos á Reykjanesskaga er að finna í hraunfræðilíkönum Veðurstofu Íslands. Vísindamenn eru sammála um að kvikugangur sé við Fagradalsfjall. Byggð er ekki talin í hættu.
Þetta segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn spurður út í fund vísindaráðs almannavarna fyrr í dag. Hann segir að þau líkön sem Háskóli Íslands hefur birt séu tilgátulíkön og að þær sviðsmyndir séu ólíklegar.
Óvíst er hvort kvikan nái upp á yfirborðið, eins og Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur greindi frá í viðtali við mbl.is.
„Það væri fínt ef þetta ástand myndi bara ganga yfir án eldgoss, en við þurfum að vera búin undir allt,“ segir Víðir.
Á morgun klukkan 13 verður haldinn stöðufundur þar sem samráðshópur almannavarna hittist. Fulltrúar frá svæðinu þar sem hættustig hefur ríkt, í Árnessýslu, á Reykjanesskaga og á höfuðborgarsvæðinu, munu ræða saman um stöðu mála.