Í skýrslu verkfræðistofunnar Verkís, sem dagsett er 4. mars 2021, kemur fram að almennt gildi að ef barn finni fyrir óþægindum vegna myglu verði að leita leiða til að bæta úr því. Það eigi ekki að vera háð niðurstöðum sýnatöku rannsókna, heldur heilsu barns.
Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á borgarstjórnarfundi fyrr í vikunni kom fram að þrátt fyrir mikil fjárútlát við endurbætur á Fossvogsskóla hafi viðeigandi árangri ekki verið náð.
Þar er enn fremur bent á niðurstöður Náttúrufræðistofnunar um að í húsnæðinu finnist eitruð efni sem geti reynst krabbameinsvaldandi sem hafi legið fyrir í desember 2020 en ekki verið birtar fyrr en í lok febrúar 2021.
Meðal annars er haft eftir sérfræðingi Náttúrufræðistofnunar Íslands í skýrslu Verkís að í einni stofu skólans hafi fundist kúlustrýnebbi, sem telst varasamur sveppur innanhúss, eftir að viðgerðum vegna myglu var lokið.
Almennt finnist minni mygla í skólanum eftir viðgerðir og þrif en þó finnist enn varasamar sveppategundir í skólanum.
Foreldrar barna í Fossvogsskóla eru margir hverjir langþreyttir á því sem þeir segja vera vanhæfni Reykjavíkurborgar til þess að takast á við vandann. Formaður skóla- og frístundaráðs segir að árangur hafi náðst í þeim aðgerðum sem ráðist var í en viðurkennir að vonbrigði séu að enn finnist myglugró í Fossvogsskóla.