Engar vísbendingar eru um að kvika sé að færast hratt nær yfirborði jarðar á Reykjanesskaga. Meðan það ástand varir eru ekki miklar líkur á eldgosi en þó verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að staðan geti breyst hratt.
Þetta er mat vísindaráðs almannavarna, sem fundaði í dag til að ræða skjálftahrinuna á Reykjanesi. Sameiginlegt mat ráðsins er að öll gögn bendi til þess að ef til goss kæmi þá yrði það á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis, en það er í samræmi við sviðsmyndir sem þegar hafa verið kynntar.
Spennuáhrif frá umbrotasvæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis skýra að öllum líkindum jarðskjálfta sem orðið hafa í Svartsengi og í grennd við Trölladyngju undanfarna daga, enda hefur engin aflögun mælst sem tengja má því að kvika sé þar á leið til yfirborðs, segir í tilkynningu frá almannavörnum.
Því sé ekki ástæða til að ætla að eldgos séu yfirvofandi á þeim stöðum, né annars staðar á Reykjanesskaga utan umbrotasvæðisins við Fagradalsfjall og Keili.
Fund vísindaráðs sátu fulltrúar frá Veðurstofunni, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Orkuveitunni, Kaus-háskóla, Uppsala-háskóla, landlækni, sóttvarnalækni, Isavia, HS Orku og ÍSOR.
Á fundinum var farið yfir túlkun á gervihnattamyndum sem bárust í gær, sem og nýjustu GPS-mælingar og sýna þær áframhaldandi færslu á svæðinu.
Kvikugangurinn liggur nær lóðrétt í jarðskorpunni og áætlað er að hann nái upp á um 2 km dýpi í jarðskorpunni. Mesta opnun jarðskorpunnar er þar fyrir neðan og nær niður á um 5 km dýpi. Miðað við niðurstöður líkanreikninganna þykir hvað áreiðanlegast að gera ráð fyrir að ef til goss kæmi, þá gæti sprunga opnast einhvers staðar á því svæði sem virkast hefur verið undanfarið, sem liggur frá miðju Fagradalsfjalli að Keili.
Kvikugangurinn liggur mjög grunnt í jarðskorpunni. Líklegustu líkönin benda til þess að gangurinn sé 5-6 km langur og að 1,5-2 km geti verið niður á efra borð hans og er því full ástæða til að bregðst við þegar óróapúlsar mælast, líkt og á miðvikudag þar sem þeir geta verið vísbendingar um upphaf goss.
Hér eru þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar: