Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í morgun til Landsréttar en héraðsdómur hafnaði kröfu ráðherra um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála yrði ógiltur.
Greint er frá áfrýjuninni á vef RÚV þar sem enn fremur kemur fram að Lilja muni ekki tjá sig um niðurstöðuna við fjölmiðla á meðan áfrýjunarferli stendur.
Úrskurður héraðsdóms í morgun laut að því að ráðherra hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls Magnússonar, fyrrverandi bæjarritara Kópavogsbæjar, í stöðu ráðuneytisstjóra, í stað þess að ráða Hafdísi Helgu Ólafsdóttur í starfið.
Úrskurðurinn stendur því og íslenska ríkið skal greiða Hafdísi málskostnað upp á 4,5 milljónir. Enn er svigrúm til áfrýjunar og ráðherra gæti því skotið málinu til æðra dómstigs. Úr því úrskurður kærunefndar stendur, getur Hafdís nú ákveðið að sækja bætur á grundvelli hans.
Embætti ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu var auglýst í júní árið 2019 og sóttu þrettán um stöðuna. Fjórir voru metnir hæfastir af hæfisnefnd, tvær konur og tveir karlar. Hafdís Helga Ólafsdóttir kærði skipunina og komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að menntamálaráðherra hefði vanmetið hæfi hennar.