Líklegt er að kvikugangur liggi lóðrétt í jarðskorpunni á svæðinu frá Fagradalsfjalli í áttina að Keili samkvæmt líkanreikningum. Áætlað er að kvikan hafi náð upp í allt að tveggja kílómetra dýpi.
Þetta segir Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur, sem sat fund vísindaráðs almannavarna í hádeginu. Kvikan er um einn metri á þykkt og nær niður á fimm til sex kílómetra dýpi. Hann bætir við að nokkur óvissa sé um túlkun þessara líkanreikninga en staðan sé líkast til svona.
„Þetta er í takt við það sem við vorum að tala um í gær en það er komin skýrari mynd. Það er ljóst að ef kvika hefur komist nálægt yfirborðinu en ekki alveg upp og þar sem þetta liggur svona grunnt er áfram tímabil sérstakrar aðgæslu,“ greinir hann frá.
Aðspurður segir hann ekkert öruggt að kvikan komist upp úr jarðskorpunni. „Það þarf að fylgjast vel með svæðinu áfram, sérstaklega ef kemur óróapúls eða ef jarðskjálftavirkni breytist snögglega.“
Það sem stjórnar því hversu mikið af kviku getur troðið sér inn í jarðskorpuna er flekahreyfingarnar. Verið er að losa um spennu sem hefur byggst upp í áratugi eða jafnvel árhundruð á svæðinu, að sögn Freysteins. „Við vitum ekki hvað rúmast mikið í jarðskorpunni áður en hún nær upp á yfirborðið. Óvissan er mikil.“
Stórum jarðskjálftum hefur fækkað að undanförnu. Spurður út í stöðuna hvað þá varðar segir hann að jarðskjálftavirkni og kvikuhreyfingar hafi haldið áfram þó að hægt hafi á jarðskjálftunum. „Við þurfum að fylgjast mjög vel með. Það er erfitt að segja til um hvert framhaldið verður,“ segir hann.