Bjarts Norðfjörð bíða átakanlegar 48 klukkustundir, þar sem hann hyggst hlaupa samtals 77,2 kílómetra. Planið er að hlaupa fjórar mílur á fjögurra klukkustunda fresti og herlegheitin hefjast klukkan fjögur í nótt.
Þessi átök eru þó að sögn Bjarts ekkert miðað við það sem kunningi hans Brandur Bjarnason Karlsson hefur lagt á sig til að vekja athygli á málstað fatlaðs fólks. Bjartur er einmitt að hlaupa til að afla fjár fyrir ferðalag sem Brandur stefnir á í byrjun maí, þar sem hann mun ferðast um landið til að tala fyrir bættu aðgengi fyrir fatlað fólk á öllum sviðum.
Brandur hefur verið lamaður fyrir neðan háls í um áratug. Bjartur þekkir Brand í gegnum föður sinn, sem tók þátt í að hanna sérstaka fluggrind fyrir Brand á sínum tíma, sem gerði honum kleift að stunda svifflug.
„Ég hef alltaf dáðst að jákvæðni hans og viðhorfi gagnvart lífinu. Þrátt fyrir að hann sé lamaður fyrir neðan háls ferðast hann meira en margir. Það er magnað að fylgjast með honum hvetja aðra áfram í lífinu,“ segir Bjartur í samtali við mbl.is.
Réttindabaráttu sína heyr Brandur að vissu leyti á eigin spýtur, þannig að uppátæki á borð við langferðir í kringum landið þarf að fjármagna með einum eða öðrum hætti. Bjartur hefur opnað söfnunarreikning fyrir sína áskorun og féð sem þangað ratar rennur vitanlega óskipt til Brands.
Hér má fylgjast með Bjarti á samfélagsmiðlum um helgina.
Kennitala söfnunarreikningsins er 020182-3779 og reikningsnúmer 515-14-412345. Hægt er að senda pening í gegnum Aur eða Kass í númerið 770-0221.